• 15/02/2018

Nú finnst mér kominn tími til að þið fáið að sjá nokkrar myndir af mér. Ég hef átt því láni að fagna að nokkrir viðskiptavinir mínir (að ógleymdri Hófí, elsku konunni minni, sem ég hef dregið með mér í nokkrar myndatökur) hafa tekið upp símann sinn þegar ég er að taka myndir, smellt af og síðan sent mér myndirnar.

Ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef þurft að þurrka af fötunum mínum með rakri tusku, eftir að hafa legið á jörðinni til að taka myndir, til að vera nú sæmilega hreinn í brúðkaupsveislu. Nú eða legið í snjó, jafnvel öslað hann upp fyrir hné, til að ná myndinni sem ég sé fyrir mér.

Mér finnst þetta alltaf jafn gaman og það hefur oft gerst að fólk hefur skellt upp úr þegar ég leggst á jörðina eftir að hafa sagt fólki hvar það á að vera.

Ég dreif loks í að safna saman myndum sem ég hef fengið sendar og skeyta þeim saman við myndir sem teknar voru við það tækifæri.

Átt þú svona myndir af mér, þar sem sést bæði í mig og viðfangsefnið? Það myndi tvímælalaust kæta mig að fá þær sendar. Hver veit nema ég útbúi svo annað albúm einhvern tímann síðar?

Loka