• 03/02/2021

Ég uppgötvaði í gær mér til hrellingar að það var orðið vandræðalega langt síðan ég uppfærði leikhúsmyndaalbúmið mitt síðast. Ég er búinn að bæta úr því. Setti þar líka myndir sem ég hef tekið á kvikmyndasetti og við auglýsingagerð.

Ef ég fengi að velja, þá myndi ég líklega vinna nær eingöngu við að taka myndir af leiksýningum og á kvikmyndasetti. Þó þetta tvennt kunni að hljóma nánast eins, þá er það ekki svo – að mynda fyrir leikhús er ansi hreint ólíkt því að mynda á setti.

Í leikhúsinu er lykilatriði að vera snöggur að bregðast við því sem er að gerast á sviðinu, reyna jafnvel að sjá fyrir hvað gerist næst – ekki ósvipað því að mynda körfuboltaleiki. Það er stór plús ef maður hefur haft tækifæri til að sjá eitt eða tvö rennsli (nokkuð sem er ekki í boði þegar körfuboltaleikir eru annars vegar), til að þurfa ekki að reiða sig of mikið á spádómsgáfuna. Ég er yfirleitt með tvær myndavélar, aðra með langri linsu og hina með stuttri, og það verður að segjast að undir lokin á tveggja tíma sýningu þá eru þessi tæki alveg farin að síga svolítið í. Yfirleitt er ég talsvert á ferðinni til að ná sem skemmtilegustu sjónarhornunum; hlaupandi á milli áhorfendabekkjanna, standandi upp við sviðið, og jafnvel laumast ég stundum upp á svið ef ég þykist vita að það sé mikið í gangi. 

Á setti er þetta talsvert öðruvísi. Þar er ég annars vegar að taka myndir af því sem gerist á bak við tjöldin og hins vegar að reyna eftir fremsta megni að endurtaka þann ramma sem nýbúið er að kvikmynda. Þar er lykilatriðið að geta beðið þolinmóður þangað til að mér kemur. Biðtímann notar maður til að skoða umhverfið, finna skemmtilegar baktjaldamyndir og umfram allt: hafa hljótt.

Loka