Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins á Íslandi, hafði samband við mig í sumar þar sem hann var með hugmynd að fjáröflun fyrir félagið. Hugmyndin hafði þróast hratt í meðförum hans og vinnufélaga hans hjá Orkuveitu Reykjavíkur og niðurstaðan varð dagatal sem ég var fenginn til að taka myndir í.
Margir vinnufélaga Guðjóns eru í mótorhjólaklúbbi innan OR sem nefnist MótOR. Þeir voru meira en til í að taka þátt og svo var fenginn einn “gestaleikari”; mótorhjólaáhugamaðurinn og bardagakappinn Gunnar Nelson.
Myndirnar voru teknar á hinum ýmsu stöðum, m.a. í Hellisheiðarvirkjun, gömlu Elliðaárstöðinni, skrifstofu forstjóra OR og Hörpu. Alls staðar var mótorhjól einhvers staðar á myndinni, og í Hörpu voru þau níu talsins!
Það var frábært að vinna með Guðjóni og félögum, sem voru allir uppfullir af hugmyndum um hvernig best væri að gera þetta, hvar væri hægt að taka myndirnar og gjörsamlega kýldu þetta allt saman í gegn.
Hér efst má sjá nokkrar myndir úr dagatalinu, og fyrir áhugasama eru hér upplýsingar um hvernig má kaupa dagatalið (sem kostar litlar 2.500 krónur) og styrkja þannig MND félagið á Íslandi:
Þú leggur inn á reikning félagsins fyrir þeim fjölda dagatala sem þú vilt styrkja félagið með, sendir þeim afrit af innlegginu og dagatalið verður póstlagt um hæl.
Bankaupplýsingar:
Reikningsnúmer: 0516-05-410900
Kennitala: 630293-3089
Netfang: mnd@mnd.is