Seint í júlí í fyrra (bara örfáum dögum eftir að við fluttum aftur til landsins frá Kanada) hafði frændi minn, Arnar, samband við mig og spurði hvort ég væri laus til að taka brúðkaupsmyndir af sér og Brynju í júní á þessu ári. Og já, ég mætti ekki segja neinum frá þessu. Ég sagðist ekki eiga von á öðru en ég væri laus. Hann ætlaði svo bara að heyra betur í mér þegar ég væri búinn að útbúa verðskrá og þess háttar. Svo heyrði ég ekkert frá honum fyrr en seint í apríl á þessu ári – heyrði það eiginlega frá mömmu minni í gegnum pabba hans að hann væri búinn að fá mig til að taka myndirnar. Það var eins gott að mamma lét mig vita, því ég var eiginlega búinn að hálfgleyma þessu þar sem hann hafði ekkert haft samband til að festa daginn. Hann er algjör snillingur, hann Arnar frændi.
Eftir smá umhugsun ákváðu þau að taka stærsta pakkann, þ.e. allan daginn, allt frá undirbúningi og langt fram í veisluna. Það var vægast sagt skemmtilegur dagur – en ég viðurkenni að ég var orðinn svolítið þreyttur undir lokin, enda þá búinn að vera að taka myndir í eina fjórtán klukkutíma.
Ég mætti heim til foreldra Brynju klukkan tíu um morguninn, þar sem hún var að byrja að undirbúa sig. Þar voru hárgreiðslukona og förðunarfræðingur þegar komnar á fullt að mála andlit og snyrta hár. Þar sem ég á erfitt með að vera á tveimur stöðum í einu fékk ég félaga minn og nafna, Gunnar Reyr, til að mynda undirbúning brúðgumans. Nafni var svo með mér í athöfninni líka. Athöfnin var svo í Bústaðakirkju, myndirnar teknar í Hellisgerði og í fjörunni við gömlu sundhöllina í Hafnarfirði, og veislan var svo í veislusal FH-inga í Kaplakrika.
Hér er góður slatti af myndum frá deginum. Njótið!